Fréttir allt

Umhyggja styrkt um 100.000 krónur

Í gær, mánudaginn 9. nóvember barst okkur hjá Umhyggju styrkur að upphæð kr.100.000. Það var hún Ólöf Hallsdóttir, margra barna móðir, amma og langamma sem færði okkur þessa gjöf en um er að ræða ágóða af hjörtum með uppörvandi skilaboðum sem hún saumaði og seldi. Við þökkum Ólöfu hjartanlega fyrir þetta frábæra framtak!

Lokað fyrir komur á skrifstofu Umhyggju - þjónusta óskert að öðru leyti

Vegna hertra samkomutakmarkana hefur Umhyggja ákveðið að loka fyrir komur á skrifstofu félagsins Háaleitisbraut 13 frá og með 5. október. til og með 10. nóvember. Þjónusta verður óskert en mun fara fram í gegnum síma, tölvupóst og fjarfundarbúnað. Áfram verður boðið upp á sálfræðiþjónustu í gegnum viðurkenndan fjarfundarbúnað.

Umsóknarfrestur vegna orlofshúsa um jól og áramót er til 1. október

Umsóknarfrestur til að sækja um orlofshús Umhyggju í Vaðlaborgum og Brekkuskógi yfir jól eða áramót rennur út 1. október næstkomandi. Um er að ræða tvö tímabil, annars vegar 23.-28. desember, og hins vegar 28. desember - 2. janúar.

Skrifstofa Umhyggju lokuð mánudaginn 14. september

Skrifstofa Umhyggju verður lokuð mánudaginn 14. september.

Takk fyrir sumarið í orlofshúsum Umhyggju

Þá eru sumardvalir félagsmanna í orlofshúsum Umhyggju í Brekkuskógi og Vaðlaborgum senn á enda. Um leið og við þökkkum gestum sumarsins fyrir komuna minnum við félagmenn á að hægt er að bóka dvöl í orlofshúsunum yfir veturinn inni á vefsíðu Umhyggju.

Hlauptu til góðs, þína eigin leið

Áheitasöfnun í tengslum við Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka hefur undanfarin ár verið ein helsta tekjulind margra af aðildarfélögum Umhyggju og skiptir hún sköpum í þeirra starfi. Í ár hefur maraþonið því miður verið blásið af vegna COVID-19, en í staðinn hvetjum við hlauparana til að hlaupa sína eigin leið þann 22. ágúst og ykkur hin til að heita á þá og láta í leiðinni gott af ykkur leiða. Lista yfir aðildarfélögin má sjá hér á vefsíðunni og hægt er að skrá sig til leiks á www.rmi.is. Við treystum á ykkur gott fólk, koma svo!

Sumarlokun hjá Umhyggju 6. júlí til 4. ágúst

Skrifstofa Umhyggju verður lokuð frá 6. júlí til 4. ágúst. Hægt er að senda póst á netfangið info@umhyggja.is og verður honum svarað um leið og við opnum aftur þann 4. ágúst.

Umhyggja styrkt í tilefni afmælis

Í dag, miðvikudaginn 1. júlí, kom Arnaldur Loftsson færandi hendi á skrifstofu Umhyggju. Arnaldur átti fimmtugsafmæli á dögunum og ákvað að afþakka gjafir en nota frekar tækifærið til að láta láta gott af sér leiða. Arnaldur á sjálfur dóttur sem var langveik en hefur náð bata og er því hlýtt til félagsins. Alls söfnuðust 200.000 krónur í afmælinu. Við hjá Umhyggju erum hrærð og þakklát yfir þessu frábæra framtaki og viljum ásamt Arnaldi koma á framfæri þakklæti til afmælisgestanna fyrir stuðninginn við félagið.

Skrifstofa Umhyggju lokuð eftir hádegi föstudaginn 26. júní

Skrifstofa Umhyggju verður lokuð eftir hádegi föstudaginn 26. júní. Hægt er að senda tölvupóst á netfangið info@umhyggja.is og verður honum svarað við fyrsta tækifæri.

Nýr framkvæmdastjóri Umhyggju

Umhyggja – félag langveikra barna hefur ráðið Árnýju Ingvarsdóttur sem framkvæmdastjóra félagsins frá og með 15. júní næstkomandi. Árný er með Cand.Psych. próf í sálfræði frá Háskólanum í Árósum og MA próf í hagnýtri ritstjórn og útgáfu frá Háskóla Íslands. Hún hefur starfað hjá Umhyggju frá árinu 2016 sem sálfræðingur, verkefnastjóri og ritstjóri Umhyggjublaðsins, og hefur frá áramótum gegnt stöðu aðstoðarframkvæmdastjóra félagsins.