01.07.2020
Í dag, miðvikudaginn 1. júlí, kom Arnaldur Loftsson færandi hendi á skrifstofu Umhyggju. Arnaldur átti fimmtugsafmæli á dögunum og ákvað að afþakka gjafir en nota frekar tækifærið til að láta láta gott af sér leiða. Arnaldur á sjálfur dóttur sem var langveik en hefur náð bata og er því hlýtt til félagsins. Alls söfnuðust 200.000 krónur í afmælinu. Við hjá Umhyggju erum hrærð og þakklát yfir þessu frábæra framtaki og viljum ásamt Arnaldi koma á framfæri þakklæti til afmælisgestanna fyrir stuðninginn við félagið.
25.06.2020
Skrifstofa Umhyggju verður lokuð eftir hádegi föstudaginn 26. júní. Hægt er að senda tölvupóst á netfangið info@umhyggja.is og verður honum svarað við fyrsta tækifæri.
12.06.2020
Umhyggja – félag langveikra barna hefur ráðið Árnýju Ingvarsdóttur sem framkvæmdastjóra félagsins frá og með 15. júní næstkomandi. Árný er með Cand.Psych. próf í sálfræði frá Háskólanum í Árósum og MA próf í hagnýtri ritstjórn og útgáfu frá Háskóla Íslands. Hún hefur starfað hjá Umhyggju frá árinu 2016 sem sálfræðingur, verkefnastjóri og ritstjóri Umhyggjublaðsins, og hefur frá áramótum gegnt stöðu aðstoðarframkvæmdastjóra félagsins.
10.06.2020
Á aðalfundi Umhyggju þriðjudaginn 9. júní létu tveir af stjórnarmeðlimum Umhyggju, þau Regína Lilja Magnúsdóttir og Andrés Ragnarsson, af störfum. Í stað þeirra taka sæti í stjórn þær Guðrún Eygló Guðmundsdóttir sérfræðingur í hjúkrun barna og Margrét Lilja Vilmundardóttir sem lýkur innan skamms embættisprófi í guðfræði. Við bjóðum þær hjartanlega velkomnar og óskum nýrri stjórn gæfu og gengis á komandi stjórnarári.
09.06.2020
Aðalfundur Umhyggju verður haldinn í dag, þriðjudaginn 9.júní kl.17:00 á Grand Hótel Reykjavík. Fundinum verður streymt.
08.06.2020
Við minnum á aðalfund Umhyggju sem haldinn verður þriðjudaginn 9. júní kl.17:00 á Grand Hótel Reykjavík. Fundinum verður streymt og verður slóð á streymið auglýst á vefsíðunni okkar á morgun, þriðjudag. Við óskum eftir því að fólk skrái sig á fundinn svo hægt sé að áætla fjölda og viðhafa allar öryggisráðstafanir vegna Covid-19.
05.06.2020
Í dag voru Umhyggju afhentar 212.000 krónur sem söfnuðust í áheitahlaupi sem krakkarnir í Lindaskóla í Kópavogi tóku þátt í. Verkefnið, sem er orðinn árviss viðburður, kalla þau Börn styrkja börn, en hlaupið kallast Lindaskólaspretturinn. Hringurinn er 1.25 kílómetrar og safna krakkarnir áheitum frá vinum og vandamönnum að upphæð 100 kr. fyrir hvern hlaupinn hring.
04.06.2020
Þann 31. mars síðastliðinn sendi Umhyggja frá sér áskorun til stjórnvalda vegna leiðréttingar tekjutaps foreldra langveikra barna sem hafa þurft að vera í verndarsóttkví vegna Covid-19 faraldursins. Þar var þess krafist að þessum hópi væru tryggðar launagreiðslur á meðan á sóttkví stæði, eins og reglugerð sem samþykkt var 21. mars gerði ráð fyrir til handa þeim sem fóru í sóttkví í kjölfar utanlandsferða eða þess að hafa umgengist smitaðan einstakling.Í gær voru samþykktar og birtar á vef félagsmálaráðuneytis breytingar á reglugerð um fjárhagslega aðstoð við framfærendur fatlaðra og langveikra barna. Þar kemur fram að foreldrar langveikra barna sem hafa verið heima með barni vegna undirliggjandi vanda þess, sem landlæknir hefur skilgreint í áhættuhópi fyrir alvarlegri sýkingu vegna Covid-19, geti sótt um eingreiðslu sem nemur 25% af fullum umönnunargreiðslum, fyrir einn mánuð að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Til að setja þetta í samhengi eru fullar umönnunargreiðslur í 1. flokki, 100% (hæsta umönnunarflokki) kr. 192.433, þar af eru 25% kr. 48.108. Umhyggja lýsir yfir vonbrigðum vegna þessarar niðurstöðu.
02.06.2020
Við minnum á aðalfund Umhyggju sem haldinn verður þriðjudaginn 9. júní kl.17:00 á Grand Hótel Reykjavík. Við biðjum fólk að skrá sig svo áætla megi fjölda og vekjum auk þess athygli á skýrslu stjórnar sem nú er aðgengileg á vefsíðunni. Tvö stjórnarsæti eru laus og tvö framboð bárust innan framboðsfrestsins.