Þann 31. mars síðastliðinn sendi Umhyggja frá sér áskorun til stjórnvalda vegna leiðréttingar tekjutaps foreldra langveikra barna sem hafa þurft að vera í verndarsóttkví vegna Covid-19 faraldursins. Þar var þess krafist að þessum hópi væru tryggðar launagreiðslur á meðan á sóttkví stæði, eins og reglugerð sem samþykkt var 21. mars gerði ráð fyrir til handa þeim sem fóru í sóttkví í kjölfar utanlandsferða eða þess að hafa umgengist smitaðan einstakling.
Í gær voru samþykktar og birtar á vef félagsmálaráðuneytis breytingar á reglugerð um fjárhagslega aðstoð við framfærendur fatlaðra og langveikra barna. Þar kemur fram að foreldrar langveikra barna sem hafa verið heima með barni vegna undirliggjandi vanda þess, sem landlæknir hefur skilgreint í áhættuhópi fyrir alvarlegri sýkingu vegna Covid-19, geti sótt um eingreiðslu sem nemur 25% af fullum umönnunargreiðslum, fyrir einn mánuð að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Til að setja þetta í samhengi eru fullar umönnunargreiðslur í 1. flokki, 100% (hæsta umönnunarflokki) kr. 192.433, þar af eru 25% kr. 48.108.
Umhyggja lýsir yfir vonbrigðum vegna þessarar niðurstöðu, enda ljóst að upphæðin sem um ræðir dugar skammt í ástandi þar sem foreldrar eru útsettir fyrir tekjumissi vikum og jafnvel mánuðum saman. Í ljósi þess að ekki er um stóran hóp fólks að ræða skorum við á stjórnvöld að endurskoða málið hið snarasta og rétta hlut þessa hóps.