Fréttir allt

Takk fyrir sumarið í orlofshúsum Umhyggju

Þá eru sumardvalir félagsmanna í orlofshúsum Umhyggju í Brekkuskógi og Vaðlaborgum senn á enda. Um leið og við þökkkum gestum sumarsins fyrir komuna minnum við félagmenn á að hægt er að bóka dvöl í orlofshúsunum yfir veturinn inni á vefsíðu Umhyggju.

Hlauptu til góðs, þína eigin leið

Áheitasöfnun í tengslum við Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka hefur undanfarin ár verið ein helsta tekjulind margra af aðildarfélögum Umhyggju og skiptir hún sköpum í þeirra starfi. Í ár hefur maraþonið því miður verið blásið af vegna COVID-19, en í staðinn hvetjum við hlauparana til að hlaupa sína eigin leið þann 22. ágúst og ykkur hin til að heita á þá og láta í leiðinni gott af ykkur leiða. Lista yfir aðildarfélögin má sjá hér á vefsíðunni og hægt er að skrá sig til leiks á www.rmi.is. Við treystum á ykkur gott fólk, koma svo!

Sumarlokun hjá Umhyggju 6. júlí til 4. ágúst

Skrifstofa Umhyggju verður lokuð frá 6. júlí til 4. ágúst. Hægt er að senda póst á netfangið info@umhyggja.is og verður honum svarað um leið og við opnum aftur þann 4. ágúst.

Umhyggja styrkt í tilefni afmælis

Í dag, miðvikudaginn 1. júlí, kom Arnaldur Loftsson færandi hendi á skrifstofu Umhyggju. Arnaldur átti fimmtugsafmæli á dögunum og ákvað að afþakka gjafir en nota frekar tækifærið til að láta láta gott af sér leiða. Arnaldur á sjálfur dóttur sem var langveik en hefur náð bata og er því hlýtt til félagsins. Alls söfnuðust 200.000 krónur í afmælinu. Við hjá Umhyggju erum hrærð og þakklát yfir þessu frábæra framtaki og viljum ásamt Arnaldi koma á framfæri þakklæti til afmælisgestanna fyrir stuðninginn við félagið.

Skrifstofa Umhyggju lokuð eftir hádegi föstudaginn 26. júní

Skrifstofa Umhyggju verður lokuð eftir hádegi föstudaginn 26. júní. Hægt er að senda tölvupóst á netfangið info@umhyggja.is og verður honum svarað við fyrsta tækifæri.

Nýr framkvæmdastjóri Umhyggju

Umhyggja – félag langveikra barna hefur ráðið Árnýju Ingvarsdóttur sem framkvæmdastjóra félagsins frá og með 15. júní næstkomandi. Árný er með Cand.Psych. próf í sálfræði frá Háskólanum í Árósum og MA próf í hagnýtri ritstjórn og útgáfu frá Háskóla Íslands. Hún hefur starfað hjá Umhyggju frá árinu 2016 sem sálfræðingur, verkefnastjóri og ritstjóri Umhyggjublaðsins, og hefur frá áramótum gegnt stöðu aðstoðarframkvæmdastjóra félagsins.

Ný stjórn Umhyggju

Á aðalfundi Umhyggju þriðjudaginn 9. júní létu tveir af stjórnarmeðlimum Umhyggju, þau Regína Lilja Magnúsdóttir og Andrés Ragnarsson, af störfum. Í stað þeirra taka sæti í stjórn þær Guðrún Eygló Guðmundsdóttir sérfræðingur í hjúkrun barna og Margrét Lilja Vilmundardóttir sem lýkur innan skamms embættisprófi í guðfræði. Við bjóðum þær hjartanlega velkomnar og óskum nýrri stjórn gæfu og gengis á komandi stjórnarári.

Aðalfundur Umhyggju kl.17 í dag - tengill á streymi

Aðalfundur Umhyggju verður haldinn í dag, þriðjudaginn 9.júní kl.17:00 á Grand Hótel Reykjavík. Fundinum verður streymt.

Minnum á aðalfund Umhyggju 9. júní kl.17:00 á Grand Hótel Reykjavík

Við minnum á aðalfund Umhyggju sem haldinn verður þriðjudaginn 9. júní kl.17:00 á Grand Hótel Reykjavík. Fundinum verður streymt og verður slóð á streymið auglýst á vefsíðunni okkar á morgun, þriðjudag. Við óskum eftir því að fólk skrái sig á fundinn svo hægt sé að áætla fjölda og viðhafa allar öryggisráðstafanir vegna Covid-19.

Krakkarnir í Lindaskóla styrkja Umhyggju með áheitahlaupi

Í dag voru Umhyggju afhentar 212.000 krónur sem söfnuðust í áheitahlaupi sem krakkarnir í Lindaskóla í Kópavogi tóku þátt í. Verkefnið, sem er orðinn árviss viðburður, kalla þau Börn styrkja börn, en hlaupið kallast Lindaskólaspretturinn. Hringurinn er 1.25 kílómetrar og safna krakkarnir áheitum frá vinum og vandamönnum að upphæð 100 kr. fyrir hvern hlaupinn hring.