Frá og með deginum í dag mun heimavöllur Stjörnunnar í íþróttahúsinu við Ásgarð heita Umhyggjuhöllin í kjölfar framsýns og fordæmisgefandi samnings milli byggingafyrirtækisins E. Sigurðsson ehf. og körfuknattleiksdeildar Stjörnunnar. Við hjá Umhyggju - félagi langveikra barna erum nær orðlaus af þakklæti og gefum því E. Sigurðsson ehf. og Stjörnunni orðið:
E. Sigurðsson ehf. og Stjarnan kynna með stolti Umhyggjuhöllina.
Í dag, fimmtudaginn 24. nóvember mun E. Sigurðsson ehf. byggingarfélag, skrifa undir samning við körfuknattleiksdeild Stjörnunnar sem einn af aðalstyrktaraðilum liðsins. Fyrirtækið mun samhliða því styðja við Umhyggju, félag langveikra barna, með margvíslegum hætti í tengslum við samninginn m.a. með því að gefa heimavelli Stjörnunnar, í íþróttahúsinu við Ásgarð, nafnið Umhyggjuhöllin félaginu til heiðurs.
Á komandi leiktíð munu Stjarnan, E. Sigurðsson ehf. og Umhyggja sameina krafta sína og standa fyrir skemmtilegum viðburðum og fjáröflunum. Umhyggju verður jafnframt úthlutað glerstúka á vellinum til einkanota fyrir félagsmenn sína.
Starf Stjörnunnar er algjörlega ómetanlegt á sviði forvarna og uppeldis ungra Garðbæinga við holla og uppbyggjandi íþróttaiðkun. Jafnframt vinnur Umhyggja aðdáunarvert starf við að styðja við langveik börn og aðstandendur þeirra með skilvirkum og fjölbreyttum hætti þegar á reynir og eiga stallinn svo sannarlega skilið.
„Við erum stolt af því að styðja við bakið á frábæru starfi innan körfuknattleiksdeildar Stjörnunnar og á sama tíma nýtum við tækifærið og veitum Umhyggju aukin sýnileika í gegnum þennan frábæra vettvang. Okkur þykir brýnt í starfsemi okkar að huga að samfélagslegri ábyrgð. Við vonumst einnig til að þessi einstaki og skemmtilegi samningur verði fordæmisgefandi fyrir önnur fyrirtæki.“– segir Eyjólfur Fannar Eyjólfsson, framkvæmdastjóri E Sigurðsson. ehf.
„Það er mikið fagnaðarefni fyrir deildina að koma að þessu einstaka verkefni með E. Sigurðsson ehf og Umhyggju. Félagið stendur okkur í Stjörnunni nærri þar sem dóttir sjúkraþjálfara mfl karla hefur notið stuðnings eins af aðildarfélögum í sinni baráttu. Samstarfið gengur út á gera starfsemi Umhyggju, sem er að vinna ómetanlegt starf í þágu langveikra barna, sýnilegri og ekki skemmir fyrir að geta boðið skjólstæðingum félagsins uppá stúku til eigin afnota þar sem ekki geta allir mætt á leiki og sest á áhorfendabekkina með okkur hinum.“ -segir Hilmar Júlíusson formaður kkd Stjörnunnar.
Fyrsti heimaleikur Stjörnunnar í Umhyggjuhöllinni er í Subway deild karla í kvöld gegn Grindavík í kjölfar undirritun samningsins og hefst hann kl 18:15. Hvetjum við alla, unga sem aldna til að mæta á leikinn og styðja Stjörnumenn til sigurs.
E. Sigurðsson ehf. mun áheita 1000 kr. af hverju skoruðu stigi Stjörnumanna í leiknum til styrktar Umhyggju og skorum við því á Stjörnumenn að hámarka stig sín og sýna hvað í þeim býr.
Eyjólfur Fannar Eyjólfsson, framkvæmdastjóri E. Sigurðsson ehf.
Hilmar Júlíusson, formaður körfuknattleiksdeildar Stjörnunnar