Þann 21. september stóð Landspítali – Háskólasjúkrahús fyrir pallborðsumræðum í tilefni alþjóðlegs dags öryggis sjúklinga sem haldinn var hátíðlegur í vikunni. Þema ársins í ár var þátttaka sjúklinga og áhrif hennar á öryggi þjónustunnar undir slagorðinu „eflum rödd sjúklinga.“
Í pallborði sátu fulltrúar hagsmunasamtakanna Umhyggju, Einstakra barna, Rótarinnar, MS félagsins, Nýrnafélagsins og Hjartaheilla sem fengu þar dýrmætt tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri við starfsfólk spítalans. Þær Kolbrún Tómasdóttir og Ragney Líf Stefánsdóttir tóku þátt sem fulltrúar Umhyggju og Einstakra barna. Meðal þess sem fram kom var áhersla á mikilvægi góðra samskipta í allri heilbrigðisþjónustu, þörf fyrir aukinn stuðning starfsfólks á meðan á innlögnum stendur samhliða auknum kröfum á foreldra langveikra barna og mikilvægi aukins upplýsingaflæðis milli deilda og stofnana innan heilbrigðiskerfisins.
Umhyggja fagnar þessu framtaki og þeim umræðum sem sköpuðust. Við vonum sannarlega að sjónarmiðin sem fram komu eigi eftir að hafa áhrif á það umbótaverkefni til eins árs sem spítalinn hefur ráðist í til að efla og auka samstarf við sjúklinga og aðstandendur.