Umhyggja- félaga langveikra barna er 35 ára um þessar mundir og í tilefni þess er boðað til málþings föstudaginn 30. október kl. 14.00 á Hilton Nordica. Málþingið er öllum opið og aðgangur er ókeypis.
Ragna K. Marinósdóttir framkvæmdastjóri Umhyggju segir að staða þjónustunnar við langveik börn sé áhyggjuefni. „ Rauði þráðurinn á málþinginu er þjónustan, þjónusta sveitarfélaganna við langveik börn og fjölskyldur þeirra. Yfirskriftin segir allt sem segja þarf, Vitar og völundarhús, en þannig er oft upplifun á vegferð fjölskyldna langveikra barna um þjónustukerfið.“
Á málþinginu verður m.a. fjallað um stefnumótun og áskoranir sveitafélaganna í málefnum langveikra barna, hvernig best sé að rata um völundarhúsið og rætt um stöðuna eins og hún er í dag. Einnig munum við heyra reynslusögu foreldris og hjúkrunarfræðingur á Barnaspítalanum mun kynna hvernig þróunin hefur verið á göngudeildarþjónustu við langveik börn og fjölskyldur þeirra. Einnig verður kynnt nýtt viðmót í sjúkraskrá sem auðveldar aðgang að upplýsingum um langveik börn.