Þegar Linda Björk hafði samband við okkur í síðustu viku, vegna styrks sem hún vildi afhenda okkur, óraði okkur ekki fyrir því að við myndum birta mynd af Vigdísi Finnbogadóttur fyrrverandi forseta í kjölfarið.
Þegar við spurðumst fyrir um styrkinn og verkefnið sagði Linda okkur að verkefnið væri sprottið af nafnlausri fyrirspurn inn á facebook-prjónahópnum Handóðir prjónarar, og varðaði uppskrift af ákveðinni lopapeysu sem Vigdís klæddist á mynd með dóttur sinni Ástríði úti í náttúrunni.
Handóðu prjónararnir voru áhugasamir og hófust ýmsar bollaleggingar um hvar uppskriftina af fallegu Vigdísarpeysunni gæti verið að finna. Linda fór á stúfana og hafði samband við fjölmarga aðila, m.a. Ástríði dóttur Vigdísar, til að reyna grafa upp eftirsóttu uppskriftina, en án árangurs.
Linda ákvað að taka málin í sínar eigin hendur og hannaði léttlopauppskrift eftir myndinni sem fylgir með þessari færslu en myndin er líklega tekin í kringum 1980-1983. Í fyrstu hannaði Linda uppskriftina fyrir sjálfa sig en ákvað stuttu síðar að kanna áhugann á henni og hvort uppskriftin gæti látið gott af sér leiða, enda væri slíkt í anda Vigdísar sem hefur verið okkur Íslendingum mikil fyrirmynd. Skemmst er frá því að segja að í dag hafa rúmlega 300 manns keypt uppskriftina og tæplega 400.000 kr. safnast fyrir Umhyggju.
Vegna mikils áhuga stofnaði Linda einnig samprjónshóp á facebook sem heitir "Vigdísar-samprjón" en í hópnum eru yfir 200 prjónarar sem prjóna saman Vigdísarpeysuna í hinum ýmsu litum.
Við hjá Umhyggju erum innilega þakklát og hvetjum ykkur öll, lengra komna prjónara og byrjendur, til að láta slag standa og prjóna Vigdísarpeysu enda er hér um að ræða einstaklega glæsilega peysu sem gaman verður að sjá um land allt í sumar.
Innilega þakkir til þín kæra Linda og til allra handóðu prjónaranna sem tekið hafa þátt.