Vel heppnað afmælismálþing

Umhyggja, félag langveikra barna, fagnaði þrjátíu ára afmæli sínu með vel heppnaðri ráðstefnu á Grand hóteli mánudaginn 25. október síðastliðinn, þar sem fjallað var um stöðuna í heilbrigðisþjónustu langveikra barna. Yfirskrift þingsins var „Hver á þá að lækna mig?“ þar sem horft var fram til ársins 2015 og þeirri spurningu varpað fram hvernig þjónusta við langveik börn yrði þá, eins og staðan er í dag. „Þetta snýst ekki um það að mikill vilji meira, heldur hvort við erum í þeirri stöðu að við getum ekki einu sinni haldið því sem við höfum. Þurfum við að bakka um tíu ár?“ sagði Leifur Bárðarson, formaður stjórnar Umhyggju í samtali við Morgunblaðið að þinginu loknu.

Meðal þeirra sem fram komu á ráðstefnunni voru Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands og verndari Umhyggju, Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Sveinn Magnús Magnússon, yfirlæknir í heilbrigðisráðuneytinu. Þá flutti Elísabet Konráðsdóttir fyrirlestur um andlega hlið barnalækninga og Ásgeir Haraldsson, yfirlæknir á Barnaspítala Hringsins, flutti erindi um þróun í barnalækningum hér á landi. Meðal annarra dagskrárliða á ráðstefnunni voru afhending gullmerkis Umhyggju, tónlistarflutningur barna og afmælishóf í lok ráðstefnunnar með köku og tilheyrandi.

 

Á málþinginu var einnig sýnt myndband eftir Elínu Hirst þar sem farið var yfir þróun mála á sviði aðstöðu sjúkra barna hér á landi frá árinu 1950. Á þeim tíma var það mikið kvalræði fyrir börn að vera lögð inn á spítala og þýddi langan og sársaukafullan aðskilnað við mömmu og pabba og aðra fjölskyldumeðlimi – og oft mátti bara heimsækja börnin á sunnudögum. Síðan þá hafa orðið gríðarlegar framfarir á sviði barnalækninga hér á landi, en margir hafa áhyggjur af framhaldinu og að sú frábæra þróun sem hefur orðið hér á landi á sviði barnalækninga stöðvist vegna ástandsins í peningamálum þjóðarinnar.

Í samtali Leifs við Morgunblaðið var talsvert rætt um framtíðarsýn í lækningum og aðhlynningu langveikra barna. „Í mörgum sérgreinum eru menn komnir á aldur og ekki langt í starfslok, en það örlar ekkert á neinum nýjum til að taka við, til dæmis vegna gigtveiki barna,“ sagði Leifur. „Það er ekki vitað til þess að neinn sé að læra þetta, og jafnvel þótt einhver læknir sé að því er ekki víst að hann komi heim. Því er eðlilegt að gigtveik börn, sem vita að þau verða gigtveik næstu árin, spyrji sig; hver á að lækna mig þá?“

Mikil og jákvæð þróun hefur orðið í barnalækningum á síðustu áratugum og Leifur segir nauðsynlegt að setja a.m.k. það markmið að verja stöðuna svo ekki verði afturför. „Við getum hugsað okkur að það sé hægt að ná skammtímasparnaði með því að draga í land núna, en þurfum að borga það margfalt eftir fimm ár? Ef við gerum ekkert til að sporna við þessum atgervisflótta er það staðreynd að staðan verður verri árið 2015 en hún er í dag,“ segir Leifur.

Í svo litlu samfélagi sem Ísland er getur brottför eins sérfræðilæknis gjörbreytt stöðu sjúklingahóps með miklar þarfir. Leifur segir ekki nýmæli að íslenskir læknar séu eftirsóttir erlendis, en þótt margir hafi kosið að vera þar um stundarsakir hafi flestir viljað koma heim á endanum, en það sé nú breytt. Því verði að búa þannig í haginn að eftirsóknarvert sé fyrir sérfræðinga að koma heim. „Við viljum ekki missa þetta niður. Staðan er viðkvæm og ef eitthvað brestur getur svo margt hrunið um leið, það er ekki meira leggjandi á langveik börn og fólkið í kring. Við eigum að geta gefið þeim það loforð að við munum halda áfram að annast þau.“