Átak sem felst í því að byggja upp öflugan styrktarsjóð á vegum Umhyggju hefst í dag fimmtudaginn 21. mars. Átakið felur í sér að safna Umhyggjusömum einstaklingum – fólki sem greiðir mánaðarlegt framlag í styrktarsjóðinn og stendur þannig á bak við langveik börn og fjölskyldur þeirra. Hægt er að gerast Umhyggjusamur einstaklingur með því að skrá sig á vefsíðunni www.umhyggjusamir.is eða með því að hringja í síma 5175858.
,,Átak Umhyggjusamra einstaklinga að leggja styrktarsjóði Umhyggju lið hefur aldrei verið mikilvægara og um leið kærkomnara en einmitt nú,“ segir Leifur Bárðarson, barnaskurðlæknir og formaður Umhyggju. Arion banki er bakhjarl átaksins.
,,Kostnaðarþátttaka almennings í heilbrigðisþjónustu hefur aldrei í sögunni verið meiri en einmitt nú. Þess vegna er það mikill léttir fyrir langveik börn og fjölskyldu þeirra að vita til þess að til eru Umhyggjusamir einstaklingar sem eru tilbúnir að stuðla að vellíðan og vonandi bata hjá barni sem berst við langvinn veikindi. Við vonumst því til að sjóðurinn verði sem öflugastur fyrir langveik börn og fjölskyldur þeirra sem þurfa sannarlega á aðstoð að halda. Nú þurfa allir að taka saman höndum því saman getum við gert lítil kraftaverk á hverjum degi,“ segir Leifur ennfremur.