Ævintýramaðurinn Sighvatur Bjarnason mun á næstunni fara umhverfis jörðina á 80 dögum einn síns liðs og safna í leiðinni áheitum fyrir Umhyggju. Leiðin spannar um 40.000 km og hófst nú í febrúar. Áður en Sighvatur hóf ferðalag sitt kom hann á fund Umhyggju og óskaði eftir að fá að safna áheitum vegna ferðarinnar í nafni félagsins. Umhyggja ákvað í kjölfarið að nýta þessa skemmtilegu hugmynd til að láta þann draum verða að veruleika að eignast tvö sumarhús, sem sniðin eru sérstaklega að þörfum langveikra barna og fjölskyldna þeirra.
Hægt er að fylgjast með ferðalagi Sighvats á visir.is þar sem hann heldur úti reglulegri vefdagbók.
Til að styðja við Sighvat og byggingu sumarhúsanna hefur söfnunarsímum verið komið upp sem hægt að hringja í og leggja þá málefninu lið með peningaframlagi. Allur ágóði fer beint inn á sumarhúsareikning Umhyggju.
Söfnunarsímanúmerin eru þrjú:
s. 903-5001 til að gefa 1.000 kr.
s. 903-5002 til að gefa 2.000 kr.
s. 903-5005 til að gefa 5.000 kr.
Einnig er hægt að leggja valfrjálsa upphæð inn á bankareikning Umhyggju nr. 0101-26-311225, kt. 6910861199.
Margt smátt gerir eitt stórt!
Nánar um ferðalagið:
Ferðalag Sighvats hefst í Suður-Afríku og liggur til norðurs um austurhluta álfunar í gegnum Zimbabwe, Mosambique, Malavi, Tansaníu, Kenýa, Eþíópíu og Djibuoti. Þaðan liggur leiðin á Arabíuskagann í gegnum Yemen, Oman, Sameinuðu arabísku furstadæmin, yfir til austur Asíu; til Írans, Pakistans, Indlands, Bangladesh og Burma. Þar liggur leiðin suður á bóginn, í gegnum Tæland, Singapore, Malasíu, Indonesíu og þvert yfir Ástralíu. Þaðan er flotið til Chile í Suður-Ameríku, ferðast norður til Bólivíu og loks yfir Amazon til norðausturhluta Brasilíu.
Fyrirmyndin að ferðalaginu er sótt í klassíska skáldsögu Jules Verne „Le tour de monde en quatre-vingts jours" frá árinu 1873. Sagan fjallar um ferðalag Philleas Fogg og samferðamanna umhverfis jörðina.
Ferðalag Sighvats verður í „road trip"-anda með eins lágum tilkostnaði eins og hægt er hverju sinni. Reglan er sú að nota ódýrasta ferðamátann sem völ er á og sem mest þann samgöngumáta sem almenningur hvers land notar. Búast má við að það verði rútur og lestir í flestum tilfellum. Gist verður á ódýrum gistiheimilum eða tjaldi eftir því sem staðhættir og öryggi leyfir hverju sinni.
Svæðin sem ferðast er um eru nær öll í „þriðja" heimshlutanum og liggur að stærstum hluta til í gegnum erfið landsvæði, frumskóga, fjalllendi og eyðimerkur. Á sumum svæðum ríkir óstöðugt pólitískt ástand eða jafnvel átök. Nær öll ríkin sem farið verður um gera kröfur um vegabréfsáritun og sum þeirra eru lokuð að hluta til. Ljóst er að ferðalagið mun fela í sér mörg flækjustig og vera krefjandi á margan hátt.