Síðastliðinn laugardag fór fram uppskeruhátíð Team Rynkeby á Íslandi en þá afhenti liðið Umhyggju söfnunarfé hjólaársins 2023-2024.
Athöfnin fór fram í sal embætti landlæknis í Katrínartúni þar sem fulltrúar frá Umhyggju, Jón Kjartan Kristinsson, stjórnarformaður Umhyggju, Chien Tai Shill, stjórnarmaður Umhyggju, og Þórdís Helgadóttir Thors, starfsmaður Umhyggju, tóku á móti styrknum frá Víólettu Óskar Hlöðversdóttur, liðstjóra íslenska liðsins. Alls safnaði Team Rynkeby Ísland 31.945.738 kr.
Team Rynkeby á uppruna sinn að rekja til Danmerkur árið 2002 en Rynkeby er danskt fyrirtæki sem sérhæfir sig í framleiðslu safa- og þykknis. Starfsmaður fyrirtækisins vildi bæta heilsu sína og datt í hug að hjóla frá Danmörku til Parísar. Svo fór að 11 hjólarar hjóluðu frá Danmörku til Parísar, rúmlega 1.200 km. ásamt einum sjálfboðaliða og smárútu. Liðið fékk m.a. styrk frá fyrirtækinu Rynkeby í formi safa til að hafa með í ferðinni.
Í raun var Team Rynkeby ekki stofnað sem góðgerðarverkefni en þegar hjólreiðamennirnir komu heim úr fyrstu ferð sinni árið 2002, höfðu þeir hagnast um 7.800 kr. en ákveðið var að gefa þessa peninga til krabbameinsdeildar barnanna á háskólasjúkrahúsinu í Óðinsvéum. Þetta var upphafið að góðgerðarverkefninu sem er til staðar í dag þar sem þátttakendum og styrktaraðilum fjölgar jafnt og þétt ár frá ári – og það gera einnig framlög til samtakanna sem Team Rynkeby styður.
Það er aðdáunarvert að fylgjast með Team Rynkeby liðinu á Íslandi leggja af stað í þetta stóra ferðalag ár hvert, en þau fljúga frá Íslandi til Danmerkur og hjóla þaðan til Parísar, um 1.300 kílómetrar á 8 dögum. Eljusemin, dugnaðurinn, æfingarnar, skipulagning, þrautseigjan og styrkurinn sem fólkið í liðinu sýnir eru aðdáunarverð.
Með framlaginu gefur Team Rynkeby von, ekki bara til barnanna í dag heldur einnig til framtíðarinnar, þar sem við getum haldið áfram að bæta lífsgæði langveikra barna.
Umhyggja tók á móti styrknum með djúpu þakklæti og stolti og þakkaði liðinu innilega fyrir að hjóla með hjarta.