Takk fyrir komuna á Umhyggjudaginn!

Umhyggjudagurinn var haldinn hátíðlegur um allt land laugardaginn 26. ágúst. Við erum innilega þakklát öllum sem tóku þátt, bæði þeim sem mættu á viðburði dagsins og glöddust með okkur og einnig samstarfsaðilum sem gerðu þennan dag að veruleika.
 
Bestu þakkir til Bakarameistarans fyrir að búa til Umhyggjusnúð sem börnum var boðinn á Umhyggjudeginum í öllum bakaríum Bakarameistarans, til Sambíóanna fyrir að bjóða fjölskyldum frítt í Kringlubíó á myndina Elemental, til Danfoss fyrir að bjóða fjölskyldum að gæða sér á poppi og djús í bíóinu, til Skopp Ísland fyrir að bjóða börnum að koma að skoppa frítt, til Bæjarins Beztu fyrir að gefa öllum pylsu sem mættu í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn, til Nathan og Olsen fyrir að bjóða upp á djús í garðinum, til Ölgerðarinnar fyrir að bjóða upp á orkudrykki í garðinum, til Nóa Síríus fyrir að bjóða upp á nammi í garðinum, til Tilefnis fyrir að útvega okkur sérmerktar blöðrur og útbúa glæsilega blöðruskreytingu í garðinum, til Partýbúðarinnar fyrir að gefa okkur helíum í 75 blöðrur sem var dreift víðsvegar um höfuðborgarsvæðið í tilefni dagsins og til yndislegu sjálfboðaliðanna frá Team Rynkeby Ísland sem aðstoðuðu við útkeyrslu og framkvæmd dagsins ❤
 
Að lokum viljum við þakka öllum þeim 43 sveitarfélögum sem tóku þátt og buðu frítt í sundlaugar sveitarfélaganna í tilefni dagsins, það yljar okkur um hjarta rætur að vita til þess að börn um allt land hafi fengið að njóta Umhyggjudagsins og við vonum að sundpokarnir og buffin eigi eftir að koma að góðum notum. 
 
Umhyggja vinnur að bættum hag langveikra barna og fjölskyldna þeirra. Umhyggjudagurinn var haldinn m.a. til að vekja athygli fólks á félaginu og starfinu sem það sinnir og hefur sinnt frá árinu 1980.
 
Hjartans þakkir ❤