Þessi útgáfa af teiknimyndinni Litlu lirfunni ljótu er stærsta upplag sem dreift hefur verið af nokkurri mynd á Íslandi. Myndin, sem er fyrsta íslenska tölvugerða teiknimyndin, sló í gegn þegar hún var frumsýnd árið 2002 og hefur unnið til fjölda verðlauna og hlotið margar viðurkenningar. Útgáfa teiknimyndarinnar, sem er sérstaklega unnin fyrir þetta átak, er talsett á 7 tungumálum, íslensku, dönsku, norsku, sænsku, finnsku, frönsku og ensku. Ásamt myndinni er á disknum heimildarmynd um gerð hennar en þess má geta að íslenska útgáfa myndarinnar er einnig með hljóðrás fyrir heimabíókerfi.
Hagnaður átaksins er áætlaður 45% af tekjum þess og rennur hagnaðurinn beint til Umhyggju og UNICEF sem skipta honum bróðurlega á milli sín. Eftir því sem fleiri heimili kaupa diskinn eykst hagnaður samtakanna.
Umhyggja mun annars vegar nota þá fjármuni sem félaginu falla í skaut til að efla Styrktarsjóð félagsins en hlutverk Styrktarsjóðs Umhyggju er að styrkja langveik börn og fjölskyldur þeirra sem lent hafa í verulegum fjárhagserfiðleikum. Hins vegar mun Umhyggja fjármagna stöðugildi sérfræðings sem veitir fjölskyldum langveikra barna sálfélagslegan stuðning.
UNICEF mun nota sinn hluta ágóðans til frekari eflingar á starfi sínu hér á landi og til að afla fjár til verkefna UNICEF um heim allan. Meðal verkefna sem UNICEF vinnur að í þróunarlöndunum er að sjá til þess að ungabörn fái nauðsynlega næringu og umhyggju, að veita börnum góða grunnmenntun og lífsnauðsynlegar bólusetningar og bætiefni.
Mörg af stærstu fyrirtækjum landsins styðja átakið: Íslandspóstur, 365 ljósvaka- og prentmiðlar, Jónar Transport, Actavis og Landsbanki Íslands, sem er fjárhagslegur bakhjarl og umsjónaraðili átaksins.
Nánari upplýsingar veita:
Jón Kristinn Snæhólm, verkefnastjóri Umhyggju, sími 821-7290
Stefán Stefánsson, framkvæmdastjóri UNICEF Ísland, sími 863-3134
Hilmar Sigurðsson, framkvæmdastjóri CAOZ, sími 821-3555
Nánari upplýsingar um Umhyggju og UNICEF Ísland: