Styrktarhlaup í Laugardalnum á mánudaginn

HlaupararLæknadagahlaupið 2012 verður haldið mánudaginn 16. janúar og rennur allur ágóði af skráningargjaldi þess í ár til Umhyggju. Hlaupa- og gönguleið hlaupsins er 5 km hringur í Laugardal (Miðnæturhlaupaleiðin). Veitt verða verðlaun fyrir fyrsta sæti í karla- og kvennaflokki og eru Nike hlaupaskór í verðlaun í báðum flokkum. Skráningargjald er 1.000 kr. fyrir 15 ára og eldri, en 500 kr. fyrir aðra. Hlaupið er öllum opið og eru þátttakendur beðnir að skrá sig á vefslóðinni www.hlaup.com. Skráningargjald skal greitt í reiðufé við afhendingu keppnisnúmera, sem hefst kl. 15:30 í anddyri Laugadalslaugar. Ræst verður kl. 17:00. Að hlaupi loknu verða léttar veitingar í boði Medtronic í Laugum, en Medtronic eru styrktaraðilar hlaupsins. Einnig er í boði að ganga vegalengdina. Fólk er hvatt til að fjölmenna og taka þátt í skemmtilegri útiveru til styrktar góðs málefnis.

Hlaupaleið:

Frá Sundlaugunum í Laugardal í átt að Laugarásveginum, beygt til hægri inn á Laugarásveginn niður Sunnuveg, niður Holtaveg, inn fyrsta malbikaða gangstíg til hægri sem liggur þvert á Laugardalinn, þar er hlaupið að hringtorginu við innganginn í Fjölskyldugarðinn. Þar er hlaupið inn stíginn meðfram húsdýragarðinum og áfram að stíg sem liggur upp að Laugardalshöll meðfram gervigrasvelli Þróttar (austan megin). Stígurinn leiðir mann upp á Engjaveg, hann farinn til vinstri (til austurs) út að enda í beygju upp að Suðurlandsbraut. Hægri beygja inn göngustíginn meðfram Suðurlandsbraut alveg að Reykjaveg, hægri beygja niður hann og í mark inn á bílastæði sundlauganna.