Sérstök sýning á Algjörum Sveppa og töfraskápnum til styrktar Umhyggju verður haldin sunnudaginn 30. október kl. 12 í Kringlubíói en þá mun Sveppi mæta á sýninguna og bíómiðinn gildir sem happdrætti. Reiðhjólin sem Sveppi og félagar hjóla á á ógnarhraða í myndinni verða í vinning.
Umhyggja er félag sem vinnur að bættum hag langveikra barna og fjölskyldna þeirra. Í félaginu starfa foreldrar langveikra barna og fagfólk innan heilbrigðiskerfisins. Aðildarfélög Umhyggju eru um 20. Littlebigfilms og Hreyfimyndasmiðjan sem framleiða kvikmyndina Algjör Sveppi og töfraskápurinn munu gefa allan ágóða af kvikmyndasýningunni. Auk þeirra gefa Sambíóin þóknun vegna leigu á kvikmyndasal.
Féð sem safnast vegna þessarar sérstöku kvikmyndasýningar rennur óskipt til Styrktarsjóðs Umhyggju en hlutverk hans er að styrkja langveik börn og fjölskyldur þeirra sem orðið hafa fyrir verulegum fjárhagsörðuleikum vegna veikindanna. Úthlutað hefur verið úr sjóðnum frá árinu 2000 en Styrktarsjóður Umhyggju var stofnaður í árslok 1996 með einnar milljónar króna gjöf frá Haraldi Böðvarssyni hf. Brýn þörf er á að halda áfram að efla sjóðinn svo hann geti orðið sem öflugastur og best í stakk búinn til að sinna hlutverki sínu.
Fyrir þá sem vilja tryggja sér miða í tæka tíð: Smellið hér!
Fyrir þá sem vilja styrkja Styrktarsjóðinn:
Reikningur: 0101-15-371646
Kennitala: 691086-1199