Samningur um rannsóknaraðstöðu hjá Sjónarhóli

Hugmyndin er að rannsóknaraðstaða hjá Sjónarhóli nýtist fyrir rannsóknir sem varða fjölskyldur barna með sérþarfir hvort sem er á sviði fötlunarfræða, uppeldisfræði, heilbrigðisvísinda, félagsfræði, stjórnmálafræði, stjórnsýslufræða, lögfræði, markaðsfræði, hagfræði eða viðskiptafræði eða annarra fræðigreina þar sem áhugi er fyrir að skapa þekkingu um þennan málaflokk.

Með rannsóknaraðstöðu hjá Sjónarhóli er stefnt að því að stuðla að rannsóknum á lífi, aðstæðum og aðbúnaði fjölskyldna barna með sérþarfir sem þætti í framþróun og stefnumörkun í málefnum þessara fjölskyldna.

Samningurinn snýst um það að Verslunarráð og Sjónarhóll leggja sameiginlega til húsnæði, HÍ annast milligöngu við nemendur í framhaldsnámi sem stunda rannsóknir á þessu sviði og Sjónarhóll leggur til þekkingu og stuðning við rannsóknarvinnuna.

Þegar hafa þrír nemendur í framhaldsnámi í fötlunarfræði við HÍ óskað eftir að fá afnot af aðstöðunni. Verkefnin sem þeir eru að vinna að snúast um atvinnumál fatlaðra, þjónustu við fjölskyldur fatlaðra barna og lífsstíl og heilsu kvenna með þroskaröskun. 

Nemendum, sem hafa áhuga á að nýta sér rannsóknaraðstöðuna hjá Sjónarhóli er bent á að hafa samband við Rannveigu Traustadóttur, prófessor við félagsvísindadeild HÍ, eða Þorgerði Ragnarsdóttur, framkvæmdastjóra Sjónarhóls, sími 535 1900, netfang thorgerdur@serstokborn.is.