Í tilkynningu frá N1 segir: "Fyrir 10 dögum var lögum um vörugjald breytt á Alþingi. Fjármálaráðuneytið upplýsti söluaðila um þessi áform eftir lokun skrifstofu þann 28. maí. Að venju var brugðist skjótt við og um leið og lögin höfðu öðlast gildi var verði breytt til samræmis við nýja reglugerð. Nokkrum dögum síðar taldi Tollstjóraembættið að ekki ætti að leggja hærra vörugjald á þær birgðir sem fyrir væru í landinu. Fjármálaráðuneytið gat ekki staðfest þennan skilning fyrr en klukkan 14:00 í gær, 9. júní, og þá var ljóst að allir eldsneytissalar landsins höfðu í nokkra daga innheimt hærri bensínskatt en lög gerðu ráð fyrir. Við lækkuðum verð okkar um leið og þessi niðurstaða lá fyrir.
N1 hefur því innheimt um það bil 9 milljónir króna í bensínskatt sem fjármálaráðuneytið mun ekki taka við af fyrrgreindum orsökum. Þessa fjármuni höfum við ákveðið að gefa til góðra málefna. Í dag munum við styrkja Mæðrastyrksnefnd, Fjölskylduhjálp Íslands, Umhyggju og Hagsmunasamtök heimilinna.
Okkar von er sú að neytendur séu okkur sammála um þessa aðferðafræði. Nú er það samt svo að sumir söluaðilar eru að bjóða neytendum endurgreiðslu gegn framvísun kvittunar og ferðalagi vestur í bæ. Vegna þessa er ekki útilokað að einhverjir neytendur krefji N1 um það sama eða fyrir misskilning komi til okkar vegna auglýsinga annarra. Við tökum vel á móti öllum slíkum óskum og útskýrum hvaða leið við höfum valið. Ef einhverjir viðskiptavinir eru okkur mjög ósammála um aðferðafræðina þá bjóðum við þeim að leita til þjónustuvers okkar sem mun leysa úr slíkum málum. Það er auðvitað hörmulegt að við skulum verða fórnarlamb misvísandi túlkana þeirra stofnana sem um þetta fjalla. Við því er þó ekkert að gera annað en að koma hreint fram og skila samfélaginu ofteknum gjöldum.
Við skulum vona að svona uppákoma hendi ekki aftur.
Hermann Guðmundsson,
forstjóri N1."