Lög Umhyggju - samþykkt á aðalfundi 28.apríl 2015

Lög Umhyggju félags langveikra barna

I. kafli

Heiti félags, heimili og hlutverk

1. gr.

            Félagið heitir Umhyggja – félag langveikra barna. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

            Félagið er samtök foreldrahópa barna með langvinna sjúkdóma, fagfólks og einstaklinga sem gæta vilja hagsmuna langveikra barna og fjölskyldna þeirra.

            Félagið er ekki rekið í hagnaðarskyni.

 

2. gr.

            Hlutverk félagsins er að gæta hagsmuna langveikra barna og fjölskyldna þeirra í hvívetna, m.a. með starfsemi Styrktarsjóðs Umhyggju.

 

3. gr.

            Tilgangi sínum hyggst félagið ná með því að:

1.   Efla og styrkja tengsl fagfólks og foreldra langveikra barna.

2.   Stuðla að upplýsingamiðlun milli foreldrahópa langveikra barna.

3.   Auka skilning stjórnvalda og almennings á vandamálum og þörfum langveikra barna og fjölskyldna þeirra.

4.   Koma á fót sálfélagslegu stuðningskerfi fyrir langveik börn og fjölskyldur þeirra.

5.   Halda málþing og fundi um málefni langveikra barna og fjölskyldna þeirra.

6.   Efla og styrkja Styrktarsjóð Umhyggju og styðja stjórn hans og úthlutunarnefnd í hvívetna.

7.   Beita hverjum þeim aðgerðum sem grípa þarf til svo félagið sinni sem best hlutverki sínu.


4. gr.

            Félagið er aðili að NOBAB, Nordisk förening för syke barns behov. Hver félagsmaður í félaginu er jafnframt félagsmaður í NOBAB.

            Stjórn félagsins tilnefnir fulltrúa í stjórn NOBAB til tveggja ára í senn.

 

5. gr.

            Félagið er aðili að EACH, European Association for Children in Hospital, og er hver félagsmaður í félaginu félagi í EACH. Stjórn félagsins tilnefnir fulltrúa í stjórn EACH til tveggja ára í senn.

 

II. kafli

Aðilar í félaginu

6. gr.

            Eftirtaldir hafa rétt til aðildar að félaginu:

1.   Foreldrafélög langveikra barna. Með foreldrafélagi er átt við félag með eigin lög sem foreldrar hafa stofnað um hóp barna með ákveðinn sjúkdóm eða sjúkdóma eða skyld vandamál.

2.   Einstaklingar, bæði fagfólk, þ.e. heilbrigðisstarfsmenn og aðrir sem áhuga hafa á málefnum langveikra barna.

Nú óskar foreldrafélag eða einstaklingur eftir aðild að félaginu og nýtur viðkomandi félagsréttinda er stjórn hefur gengið úr skugga um að hann fullnægi skilyrðum til inngöngu í félagið.

            Foreldrafélög sem eru aðilar að félaginu eru öll jafnrétthá, án tillits til stærðar.

 

7. gr.

            Stjórn félagsins getur vikið félaga úr félaginu ef hann hefur ekki greitt árgjald tvö ár í röð, en borið getur hann mál sitt undir almennan félagsfund.

 

8. gr.

Reikningsár félagsins er almanaksárið.

Árgjald félagsins er ákveðið á aðalfundi ár hvert. Einstaklingar greiða eitt árgjald en foreldrafélag þrjú árgjöld.

            Kostnaður við starfsemi félagsins skal greiddur með tekjum af árgjöldum og öðrum framlögum sem félaginu berast til reksturs.

 

III. kafli

Aðalfundur

 

9. gr.

            Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins.

            Aðalfund skal halda í síðari hluta febrúarmánuðar ár hvert. Til aðalfundar skal boða með auglýsingu í blöðum eða á annan tryggilegan hátt og með viku fyrirvara hið skemmsta og er hann þá lögmætur.

            Afl atkvæða ræður úrslitum mála nema annars sé getið í lögum þessum.

 

10. gr.

            Rétt til setu á aðalfundi eiga allir sem aðilar eru að félaginu, fulltrúar foreldrafélaga og einstaklingar.

            Atkvæðisrétt eiga allir aðilar að félaginu. Foreldrafélög hafa þrjú atkvæði hvert og einstaklingar eitt atkvæði hver. Einn og sami einstaklingurinn getur farið með öll atkvæði eins foreldrafélags auk þess að fara með sitt eigið atkvæði, sé hann félagsmaður í Umhyggju.

 

11. gr.

            Þessi mál skulu tekin til meðferðar á aðalfundi:

1.   Stjórn félagsins gerir grein fyrir störfum félagsins.

2.   Stjórn leggur fram endurskoðaða reikninga félagsins.

3.   Kosning stjórnar.

4.   Kosning skoðunarmanna reikninga.

5.   Ákvörðun árgjalds.

6.   Lagabreytingar, ef einhverjar eru.

7.   Önnur mál.

 

12. gr.

Lögum félagsins verður aðeins breytt á aðalfundi þess. Lagabreytingar, ef einhverjar eru, skulu sendar út með fundarboði aðalfundar. Tillögur um lagabreytingar skulu sendar stjórn a.m.k. mánuði fyrir aðalfund.

            Nái tillaga til lagabreytinga samþykki aukins meiri hluta fundarmanna fær hún gildi.

 

IV. kafli

Stjórn félagsins

 

13. gr.

            Stjórn félagsins skal skipuð sjö mönnum. Við það skal miðað að í stjórn sitji þrír foreldrar langveikra, þrír fagaðilar og einn sem telst til áhugamanna um málefni langveikra barna.

            Kjörtímabil hvers stjórnarmanns skal vera tvö ár. Enginn stjórnarmaður skal sitja lengur en átta ár í stjórn félagsins. Stjórnin skiptir með sér verkum á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund.

 

14. gr.

            Stjórn félagsins ræður málefnum félagsins með þeim takmörkunum er lög þessi setja.

            Hún tekur nánari ákvarðanir um starfsemi félagsins og ber ábyrgð á fjárreiðum þess. Hún skuldbindur félagið gagnvart öðrum aðilum og er undirskrift formanns og gjaldkera nægileg til þess.

 

15. gr.

            Stjórnarfundi skal boða með tryggilegum hætti og að jafnaði með viku fyrirvara, ef unnt er. Stjórnarfundi skal halda eins oft og formaður telur nauðsynlegt en þó ekki sjaldnar en á tveggja mánaða fresti. Ennfremur skal halda stjórnarfund ef a.m.k. fjórir stjórnarmenn óska þess.

            Stjórnarfundur er ályktunarfær ef fjórir stjórnarmenn sækja fund hið fæsta. Afl atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundum. Nú eru atkvæði jöfn og ræður þá atkvæði formanns (varaformanns) úrslitum.

            Formaður stjórnar fundum og varaformaður í forföllum hans.

            Gerðir stjórnarinnar skulu bókfærðar.

 

16. gr.

            Nú kemur fram tillaga um það að félaginu skuli slitið og skal hún þá sæta sömu meðferð sem tillaga til lagabreytinga, sbr. 12. gr.

            Ef samþykkt verður að slíta félaginu skulu eignir þess renna til barnadeilda sjúkrahúsanna í landinu.

 

Lög  þessi voru samþykkt á aðalfundi Umhyggju 28. apríl 2015.