Þriðjudaginn 24. október leggja konur og kvár niður störf til að mótmæla kerfisbundnu laumamisrétti og kynbundnu ofbeldi. Þar sem allir starfsmenn Umhyggju eru konur verður skrifstofan lokuð.
Kjarninn í baráttunni snýst um að uppræta vanmat á störfum kvenna, launuðum sem ólaunuðum. Í því samhengi er vert að nefna framlag ótal mæðra langveikra barna sem bera hitann og þungann af umönnun barna sinna. Í flestum tilvikum eru það mæður sem minnka við sig eða hætta vinnu til að sinna langveikum börnum og eru sumar hverjar árum saman utan vinnumarkaðar eða í skertu starfshlutfalli. Þær fara því á mis við ýmis tækifæri í atvinnulífinu, verða af tekjum og búa við skert lífeyrisréttindi. Margar þeirra eiga ekki heimangengt í dag og eru því #ómissandi nú sem aðra daga.