Þeir fjórir sem leggja þá þrekraun að baki að hjóla hringinn eru þeir Sigmundur Eyþórsson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Suðurnesja, Jóhannes A. Kristbjörnsson, rannsóknarlögreglumaður í Keflavík, Júlíus Júlíusson, slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður og Gestur Pálmason, lögreglumaður á Keflavíkurflugvelli.
Þeir hafa æft stíft fyrir ferðalagið og fóru m.a. 25 km. hring um Reykjanesbæ, Garð og Sandgerði í gær. Í nótt hófst svo fyrsti hluti ferðarinnar um Ísland. Lagt var upp frá Reykjanesbæ kl. 03 í nótt og fyrsta stopp áætlað á Selfossi fyrir hádegi í dag á Hvítasunnudegi. Þar ætlaði slökkviliðsstjórinn á Selfossi að taka á móti mönnum. Gert er ráð fyrir að fyrsta áfanga verði lokið við Hótel Rangá síðdegis. Þá verður fyrsti áfangi metinn og lagt á ráðin um þann næsta.
Hópurinn gerir ráð fyrir að hjóla 150-200 km. á dag. Lengsti áfanginn verður þegar hjólað verður frá Kirkjubæjarklaustri og á Höfn í Hornafirði. Farið verður um suðurfirði Austfjarða, til Reyðarfjarðar og þaðan á Egilsstaði. Þaðan verður farið um Öræfi og sem leið liggur á Akureyri. Hópurinn gerir ráð fyrir að vera á Akureyri á Sjómannadaginn. Það verður jafnframt eini frídagurinn í ferðinni. Frá Akureyri verður farið um þjóðveg 1 áfram og stefnt á að vera í Reykjanesbæ miðvikudaginn 14. júní.
Hjólreiðamennirnir fjórir hafa fylgd þjónustubifreiðar sem Almannavarnir á Suðurnesjum leggja til.
Sparisjóðurinn í Keflavík er aðalstyrktaraðili ferðarinnar og fjárgæsluaðili söfnunarinnar. Fjölmargir aðrir aðilar leggja verkefninu lið á einn eða annan hátt. Á vef Víkurfrétta er greint frá ferðinni í máli og myndum. Umfjöllun um verkefnið má nálgast á slóðinni http://vf.is/hjolad/
Hjólreiðamennirnir vilja við upphaf ferðarinnar þakka öllum sem komið hafa að undirbúningi á einn eða annan hátt. Fjölmargir hafa styrkt förina og vonandi eiga margir eftir að bætast í hópinn með stuðningi við verðugt verkefni, að láta fé af hendi rakna til langveikra barna á Íslandi.
Stofnaður hefur verið söfnunarreikningur við Sparisjóðinn í Keflavík. Númer hans er 1109-05-411115 og kennitalan er 610269-3389.