Hamingjumót Víkings var haldið í fyrsta sinn síðastliðna helgi þar sem 1700 krakkar í 7. og 8. flokki kepptu í fótbolta. Hluti af þátttökugjaldinu rann til Umhyggju – félags langveikra barna. „Með þessu viljum við Víkingar stuðla að velferð barna, líka þeirra sem ekki geta tekið þátt í fótboltamótum vegna veikinda,“ sagði mótsstjórinn Davíð Ólafsson sem bar hitann og þungann af skipulagningu mótsins. Var styrkurinn, 1 milljón krónur, afhentur Umhyggju á mótinu.
Við hjá Umhyggju erum innilega þakklát Víkingi og öllum þátttakendum Hamingjumótsins fyrir frábæran stuðning. Það yljar manni sannarlega um hjartarætur að Víkingur skuli hafa haft frumkvæði að því að styrkja Umhyggju og sjá um leið að ungir og upprennandi fótboltaleikmenn framtíðarinnar skuli strax vera farnir að láta til sín taka þegar kemur að því að styðja við þá sem þurfa á að halda. Takk Víkingur og takk frábæru fótboltakrakkar!