Nýlega var undirritaður samstarfssamningur á milli Umhyggju, félags til stuðnings langveikum börnum, og Iceland Express til þriggja ára. Samkomulagið felur í sér að Iceland Express mun afhenda Umhyggju 13 ferðir fram og til baka á ári til áfangastaða félagsins. Í þessum ferðum verður styrkþega heimilt að ferðast með yfirvigt allt að 20 kg. Markmið með þessum samningi milli félaganna tveggja er að aðstoða langveik börn og fjölskyldur þeirra við að ferðast til útlanda. Langveika barnið fær farmiða fyrir sjálft sig en einnig er möguleiki á að fá annan miða fyrir aðstoðarmann ef þörf er á. Aðrir fjölskyldumeðlimir greiða sjálfir fyrir sitt flugfar.
Þetta framlag frá Iceland Express mun án efa létta mikið undir hjá þeim fjölskyldum langveikra barna sem huga á utanferð þetta árið. Þá er afar heppilegt að geta ferðast með 20 kg. í yfirvigt, en það mun koma sér sérstaklega vel þegar um hjálpartæki og ýmsan sérútbúnað er að ræða sem margir af skjólstæðingum Umhyggju og aðildarfélaganna þurfa svo sannalega á að halda. Iceland Express er einn af helstu styrktaraðilum Umhyggju og eru forsvarsmönnum félagsins færðar bestu þakkir fyrir þetta framlag til handa langveikum börnum. Allar frekari upplýsingar eru hjá skrifstofu Umhyggju í síma 552-4242.