Skrifað var undir samning í dag milli ráðuneyta og sveitarfélaga um að á þessu ári verði áttatíu milljónir króna veittar af fjárlögum til sveitarfélaga til að auka þjónustu við langveik börn og börn með ofvirkni eða athyglisbrest. Ráðherrar félags- og tryggingarmála, mennta- og menningarmála og heilbrigðismála skrifuðu undir samninginn ásamt formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga að viðstöddum forsætisráðherra og fulltrúum Umhyggju og ADHD samtakanna. Skrifað var undir samninginn í Alþingishúsinu.
Með samstarfssamningnum er lögð áhersla á að tryggja þjónustu í samræmi við þarfir barnanna og fjölskyldna þeirra, óháð því hver ber ábyrgð á þjónustunni. Ráðuneytin sem koma að samningnum leggja öll fé til verkefnisins í sameiginlegan sjóð sem sveitarfélögin sækja í til tiltekinna verkefna. Sveitarfélögin bera ábyrgð á einstökum verkefnum og taka að sér skipulagningu og framkvæmd þjónustunnar.
Á næstu dögum mun stjórn verkefnisins auglýsa eftir umsóknum sveitarfélaga um styrki til verkefna í samræmi við samkomulagið. Samstarfssamningurinn gildir til ársloka 2011 en framlög til verkefna árin 2010 og 2011 ráðast af fjárlögum.